Wednesday, July 30, 2014

Staðsetning Þórarins Blöndal í 002 Gallerí

Föstudaginn 28. mars klukkan 18.00 opnaði Þórarinn Blöndal myndlistarmaður einkasýninguna Staðsetningu í 002 Gallerí að Þúfubarði 17 í Hafnarfirði. Sýning Þórarins er sú fyrsta af átta myndlistarviðburðum á fyrstu Myndlistarhátíð 002 Gallerís, sem stendur frá 28. mars til 1. júní 2014.

Þórarinn sýnir nokkur þrívíð verk og ljósmyndir sem eru unnin í nánu samhengi við sýningarrými 002 Gallerís, en það er íbúð og vinnustofa myndlistarmannsins Birgis Sigurðssonar. Þetta óvenjulega gallerí hefur verið starfrækt um þriggja ára skeið í ósköp venjulegri kjallaraíbúð í blokk í Hafnarfirði, en nú í fyrsta sinn flytur Birgir ekki allt sitt hafurtask úr íbúðinni fyrir sýningu í galleríinu.

Gaumgæfir Þórarinn eftir tengingum og snertiflötum þeirra beggja og hvernig nýr viðkomustaður breytir för. Ferðalagið hófst fyrir nokkru og kveikjan var gamalkunn árátta og þrá eftir hinu óvænta. Renna vinnustofa Þórarins, verkferlar og fyrirætlanir saman við hýbýli og vinnustofu  Birgis og sá núningur ákvarðar nýja staðsetningu.

Þórarinn Blöndal er fæddur á Akureyri 1966. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík og Rotterdam, Hollandi. Hann hefur tekið þátt í fjölmörgum sýningum bæði hér heima og erlendis. Á síðasta ári má telja samsýningar í firstlines gallery og Halle50 í Munchen og Samhengi hlutanna í Listasafni Akureyrar

012

036

052

Hægt er að sjá fleiri myndir Hér

No comments:

Post a Comment